Sunday, August 10, 2008

Lífið Í Lima

Maður veit aldrei hvernig maður á að byrja svona. Ég er að hugsa um að segja ykkur aðeins frá fyrstu helginni minni hér í Lima nú þegar akkúrat vika er liðin síðan að ég kom hingað.

Við fengum okkar langþráða heimili loks á fimmtudaginn eftir mikið hótelbrölt og eirðarleysi sem betur verður greint frá í ferðasögunni sem er í vinnslu. Það er ólýsanleg tilfinning að eiga loks samastað á svona ókunnugum stað, mikil öryggis tilfinning kemur yfir mann sem og ákveðin ró vitandi það að maður þarf ekki að hugsa um hvar maður ætlar að sofa í nótt.

Eftir mikið brölt þá er það kannski skiljanlegt að helgin okkar er búin að vera svakalega róleg, og erum við öll 4 búin að einbeita okkur að því að njóta heimilisins okkar þessa helgi með því að gera lítið annað en að hanga í leti. Íbúðin okkar er á besta stað í bænum, á öruggum stað gegnt skrifstofu forsætisráðherra Perú og gefur að skilja að öryggisgæsla er því mikil í hverfinu. Við búum á 16. hæð í þriggja mánaða gamalli blokk, uppi á þaki er sundlaug, sem og BBQ og party svalir sem að við höfum aðgang að. Niðri á 1. Hæð er svo líkamsrækt, borðtennisborð og þvottahús sem við höfum öll aðgang að frítt að undanskildu þvottahúsinu þar sem að þvottavélin kostar um 60 krónur til að spara vatn :D ég hef því allt til alls og læt mér líða eins vel og hægt er hér í Lima. Það er ýmislegt sem að maður saknar að heiman, fyrst og fremst eru það fjölskylda og vinir en einnig sakna ég þess að skilja fólk og að það skilji mig, en vonandi verður breyting á því fljótlega...

Eftir að hafa flutt inn seinni part fimmtudags fór sá dagur í að ná sér niður á jörðina og búa um okkur. Á Föstudaginn var svo eldhúsið vígt með yndislegum spaghettí rétt með ferskum ólífum. Laugardagurinn var leti líf í lagi, ég eyddi deginum að mestu uppi í sófa að horfa á fótbolta(mér til mikillar ánægju er ekkert nema fótbolti í sjónavarpinu hér, og heilar þrjár stöðvar sem sýna ekkert annað allan sólahringinn), þó tók ég smá rölt með Davíð niður í Larcomar með myndavélina, eitthvað sem að ég mun ekki gera á næstunni þar sem að betlarar og götu höstlerar léku sér að því að pirra mig.

Laugardagskvöldið fór svo í það að njóta samverunnar í nýju íbúðinni með besta rauðvíni sem að við höfum smakkað, rándýrt rauðvín sem að kostaði okkur heilar 1800 kr (til að setja það í samhengi keyptum við okkur þrísíaða vodka flösku á um 450 krónur) og þegar rauðvínið hafði klárast þá hitnaði aðeins í konunum og vodka flaskan fékk að finna fyrir því út í sprite og ótrúlega ferskt lime fékk þar að fylgja með. Ég þarf eigin lega að setja inn sér færslu seinn um grænmetis og ávaxta úrvalið hér í Lima, hreint útsagt ótrúlegt.
Því gefur að skilja að dagurinn í dag(sunnudagur) fór að mestu leyti fram í sófanum fyrir framan sjónvarpið að horfa á boltann. Ég vaknaði snemma til þess að ná frekar leiðinlegum leik sem var góðgerðarskjöldurinn í enska, en svo fylgdu hörku leikir í argentínska boltanum þar sem að ég horfði á River Plate gera 1-1 jafntefli í opnunar leik mótsins þar syðra og þar á eftir fylgdi aðal leikur dagsins þegar liðið mitt Boca jr. tók á móti Gymnasia á La Bombonera og þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um þann leik enda fór Boca létt með 4-0 sigur mér til mikillar ánægju.

En ein helst ástæðan fyrir þessum pistli er að segja ykkur frá kvöldstundinni minni í kvöld. Kvöldið í kvöld átti að fara í inniveru og stelpurnar ætluðu í bíó. Við ákváðum þó að labba saman út á horn og kíkja á nálæga veitingastaði þar sem að við nenntum ekki að elda. Við kíktum inn á krúttlegan veitingastað sem heitir Tanta. Í fyrstu virtist þessi staður vera rosa krúttlegt kaffi hús en guð minn góður hvað það átti eftir að breytast. Fljótlega eftir að við settumst niður og fengum matseðlana í hendurnar komumst við að því að þetta væri nú staður í dýrari kantinum og að það væri aðeins fólk í efri stéttum samfélagsins í kringum okkur. Ég ákvað að fá mér steikarsamloku sem að var mælt með á matseðlinum, stelpurnar fengu sér lasagna og Davíð ákvað að vera brattur og fékk sér nautakjöt. Ég fullyrði það hér og nú að betra veitingahús er vandfundið hér á nágranaslóðum, þetta er allra besta steikarsamloka sem að ég hef smakkað, sömu sögu er að segja af nautinu hans Davíðs og lasagnað hjá stelpunum var ekkert slor heldur. Að því loknu fengum við okkur eftirrétt, ég fékk mér eina rosalegustu súkkulaðiköku sunnan miðbaugs, og fæ ég enn vatn í munninn við það að hugsa um hana. Þessi ósköp kostuðu mig heilar 32 sólir eða um 928 kr íslenskar og geri aðrir betur. Ég husga að ég verði fasta gestur á þessum æðislega veitingastað hinumegin við götuna mína á næstu mánuðum, og höfum við krakkarnir í hyggju að reyna smakka allt sem er í boði á matseðlinum :D

Annars er allt gott að frétta og ég bið að heilsa öllum heim...

Bestu kveðjur

Ægir

P.S. ég vil benda ykkur á að skoða neitendakönnunina sem að Davíð gerði um daginn, linkurinn á hans síðu er hér til hægri...

1 Comments:

At August 11, 2008 at 7:48 PM , Blogger Ásta said...

Hæ ástin mín. Gaman að lesa blogg loksins. Heyrðu vá hvað mér líst vel á þennan veitingastað - ódýrara en fyrir okkur að fara á McDonalds :S jakk

Sakna þín helling og hlakka til að lesa meir :)

 

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]

<< Home