Thursday, September 4, 2008

Góðan daginn mínir kæru vinir og vandamenn.

Lífið hérna gengur sinn vanagang, og allir rosa glaðir og kátir. Fyrir utan það kannski að við erum öll búin að vera með svakalega magaverki og eru klósettin ef til vill búin að finna hve verst fyrir því og eiga þau alla okkar vorkunn skilið. Af þessum sökum er ég lítið búin að vera í standi til þess að segja ferðasögur en í dag verður breyting þar á.

Fyrir rétt tæpum tveimur vikum fórum við til Hucachina, sem er lítil paradísarlaut í miðri eyðimörkinni í suður hluta landsins. Við ferðuðumst með rútu þar sem að almennings samgöngur hér eru svipaðar og heima. Engar lestir og dýr flug. Við mættum á lestarstöðina þar sem að við hittum hóp af skiptinemum sem að fóru með okkur, allt í allt vorum við tæplega 60 talsins. Við lögðum af stað úr hverfi sem er allt í allt ekkert svo slæmt en þó verra en það sem að við búum í, en með hverri mínútunni sem að leið í rútunni og eftir því sem að við fjarlægðumst rútumiðstöðina þeim mun verra varð það. Það eru örfáar myndir sem að ég tók út um gluggann þar sem að þið sjáið aðstæðurnar sem fólkið býr við í hlíðunum sem eru við jaðarinn á Lima. Svipað tók við þegar við vorum komin út úr Lima í fyrstu að minnsta og var á tíðum hreint hrikalegt að horfa á það hvernig fólk býr. Eftir um klukkustunda ferð þá var gert pissu stop, þetta verður að heita eitt það ógeðfelldasta klóset sem að ég hef nokkru sinni stigið fæti inn fyrir, og þá er mikið sagt. Sem betur fyrir ykkur og mig þá á ég engar myndir af því, þið verðið því bara að láta ímyndunaraflið reika.



Eftir þessa áreynslu miklu klósett ferð tók svo alvöru ferðalagið aftur við, og varð ýmislegt á okkar vegi, það sem að kannski stendur hvað mest uppúr voru hversu rosalegar sviptingar voru á leiðinni. Það voru rosaleg hálf hrunin bárujárns skúrahverfi og svo hálfum km seinna var komið afgirt sumar þorp fyrir hina meira efnuðu, og sumir veggirnir í kringum þessi hverfi hafa kostað meira en samanlagðar árstekjur allra þeirra sem að bjuggu í skúrunum í kringum ríku fínu einkastrandirnar.


Annað sem að stóð uppúr voru minnis varðarnir sem höfðu verið reistir í vegaköntunum til minnis þeirra sem að hafa farist í umferðarslysum á leiðinni. Okkur var tjáð það eftir á að umferðar slys þá sérstaklega rútuslys væru frekar algeng í Perú og við vorum víst ekki að ferðast með öruggasta rútufyrirtækinu.


Örfáum klukkustundum síðar vorum við síðan komin til Pisco, lítil borg sem varð hrikalega úti í öflugum jarðskjálfta sem átti sér stað akkúrat ári áður en að við áttum leið hjá. Við áttuðum okkur ekki á því fyrst en þegar okkur var sagt frá því seinna þá tók margt að skýrast. Hálfhrunin húsþök með krossum til minningar um hörmungarnar, mikið um hálf hús og endur byggingar. Við héldum í sakleysi okkar í fyrstu að það væri bara svona mikil uppbygging í Pisco, en frekar hefði átt að tala um endurbyggingu heillar borgar sem að hrundi nánast í heilu lagi sökum þess hversu illa byggð húsin voru. Eitt það sorglegasta í þessu öllu er að húsin sem verið var að byggja voru samskonar þeim sem hrundu og því alveg jafn veik fyrir ef að skjálftinn ríður yfir aftur. Múrsteina kassar með drullu þaki. En það er svo sem lítið annað í boði fyrir fólk sem að á ekki neitt eftir að hafa misst allt sitt.

Því næst var komið að endastöð rútunnar, eða til Ica sem er frekar lítil og illa farin borg þrátt fyrir að þar búi álíka margir og á Íslandi. Það var svo sem lítið merkilegt sem að við sáum þar, enda brunuðum við á rútustöðina, og hoppuðum upp í lítinn míníbus sem að keyrði okkur í eyðimörkina sem var þó aðeins í um 5-10 mínútna akstri frá rútustöðinni.


Þegar komið var svo loks í það sem að átti að vera þessi mikla paradís, starði raunveruleikinn okkur blákalt niður. Við vorum komin til Sarajevo. Við verðum að viðurkenna það að miðað við þær væntingar sem að við gerðum okkur þá urðum við fyrir miklum vonbrigðum í fyrstu. Pleisið var drullu skítugt, vatnið gruggugt og skítugir flökkuhundar út um allt. Þegar búið var svo að koma sér fyrir í frekar nasty herbergjum ákváðum við að fá okkur að borða. Við fórum 5 saman, ég, Sigga, Davíð og þýsku vinirnir okkar tveir Friðrik og Kristján. Og fengum við líka þennan ógeðslega mat samloku í sykruðu hamborgarabrauði og eitthvað sem að líktist ekki hamborgara. En eftir þessar miklu sviptingar tók sólin að skína á okkur aftur og allt varð svona líka gott. Það er helvíti gott að lenda á bossanum strax og átta sig á raunveruleikanum.


Stuttu síðar var svo komið að hápunkti ferðarinnar, eyðimerkur rallíinu. Við settumst upp í lítið skrímsli með ennþá minna skrímsli við stýrið. Bílstjórinn getur ekki hafa verið mikið hærri en 1 og 40 cm en alveg snar ruglaður í hausnum. Við skundum af stað upp og niður brekkur á ljóshraða (eða svo fannst okkur), steyptumst fram af sand klettum sem að hrundu jafn óðan undan okkur og bombuðumst niður það sem virtist vera beint fall í fyrstu. Þegar við stoppuðum þá reyndi Davíð að gera sig skiljanlegan við bílstjórann okkar og talaði á einhverskonar bílafingramáli og spurði hversu kraftmikill bíllinn væri: ‘How many horsepower?‘ Littli vinur okkar svaraði hið snarasta: ocho (8). Átta hvað spurðum við sjálfa okkur en gátum því miður ekki gert okkur skiljanlega. Eftir stutta myndatöku, skelltum við á okkur snjóbrettum (eða niðursöguðum krossvið með olíufeiti) og þrusuðumst niður brekkurnar. Ég verð að segja það fyrir mitt leiti að eftir að hafa rennt mér einu sinni á snjóbretti og einu sinni á sandbretti, þá hefur hið síðara gífurlega yfirburði. Það er alltaf sól, það er alltaf heitt, maður þarf því ekki að útbúa sig eins og snjómaður, og þar að auki er ekkert svo slæmt að lenda í sandinum. Ég er reyndar enn að tína sandkornin eitt og eitt úr fötunum mínum. Að þessu loknu þá skunduðum við heim á leið en stoppuðum til þess að sjá sólina setjast. Ótrúlegt hversu hratt hún sest svona nálægt miðbaugi, hún var aðeins örfáar mínútur að hverfa bakvið fjöllin. Sólsetrið í eyðimörkinni minnti margt á Ísland, rauðleitur himin og sólin að hverfa bak við næstu hæð.



Það sem fylgdi á eftir er varla frásögufærandi, við komum heim til Sarajevo og fengum reyndar þennan dýryndis mat, eitthvað grillkjöt sem að ég hef ekki hugmynd um hvað var og yndislegt chilli salat með. Að kvöldmatnum lokið var svo ferðinni heitið á Diskóbar. Reyndar varð kvöldið mitt ekki lengra. Ég kíkti aðeins á Diskóbarinn sem var fullbúinn flúorljósum og diskókúlum. Dansgólfið var hálftómt enda voru ekki nema um réttrúmlega 50 skiptinemar á dansgólfinu að baða sig í ljósunum. Eftir að hafa eitt nokkrum mínútum á barnum var ferðinni heitið heim á klósettið þar sem að ég eyddi restinni af ferðinni og útskýrir það kannski hversvegna ekki eru fleiri myndir eftir eyðimörkina. Reyndar var einn af hápunktum ferðarinnar þegar að ég þurfti að reyna útskýra það fyrir þjónustufólkinu að klósetið væri stíflað og að það þyrfti að kippa því í lag ASAP :D

Það var rosalega blendin tilfinning að yfirgefa þennan stórfurðulega stað. Ég og Davíð komumst að því að ‚næstum því‘ væri besta leiðin til þess að lýsa þessum stað. Hann hefur allt að bera til þess að vera svo miklu meira en hann er. Það væri hægt að gera svo margt við svo spennandi stað, en einhvernvegin hefur þessi staður sem greinilega var eitt sinn eitthvað fengið að drabbast niður í eitthvað sem er langt fyrir neðan það sem að hann á skilið. Það er svo sem eins og með allt annað í þessu landi það vantar fjármuni til þess að fjármagna breytingar. Þó skilur þessi staður eftir sig góðar og heillandi minningar.

Ferðin heim var svo farin í þreytu og þögn, mestmegnis var horft á video og sofið í þá 4 og ½ tíma sem að ferðin heim tók. Íbúðina sá maður í hillingum sem og rúmmið og sturtuna.

Í kvöld þegar ég rifja upp þessa eftirminnilegu ferð er ótrúlega kósí kvöld hjá okkur fjölskyldunni, við sitjum hérna við stofuborðið að drekka bjór, hlustandi á Tom Waits. Ég er ekkert viss um að lífið geti verið mikið betra hér í Perú um þessar stundir.

Wednesday, September 3, 2008

Nýjar myndir...

Hér koma myndir frá ferðalaginu okkar til Huacachina...




http://picasaweb.google.com/Aegirgud/Hucachina#


...Ferða sagan verður svo birt vonandi á morgun

Friday, August 29, 2008

Halló gott fólk...

Hvernig er lífið á klakanum? Ég verð að viðurkenna það að ég var farin að öfunda ykkur af veðrinu heima þar sem að veðrið hér var og er í rauninni ekkert spes. Þeir segja að himininn hér í líma sé eins og maginn á belju; grár og óspennandi. En nú er staðan önnur, hér fer hlýnar með hverri mínútu og þegar maður hringir heim eða kíkir á mbl.is þessa daganna þá áttar maður sig á því hversvegna maður er hér :D

Það er ótrúlegt hvað fólk hér er vinalegt og viljandi til þess að hjálpa manni þrátt fyrir afar takmarkaða spænsku kunnáttu, ég er þó farin að geta spurt að því hvað þetta kostar, skilið tölurnar og svarað aðeins fyrir mig. Þetta kemur allt á endanum og hef ég ekki miklar áhyggjur af því í raun og veru.

Það er ótrúlega margt hér sem situr í manni, stéttaskiptingin er rosaleg og er meður enn að átta sig á henni, ótrúlegt hvað fólk fær lítið borgað og hvernig það lifir. Ég held að það sé ótrúlega gott fyrir alla að átta sig á hversu svartur og hvítur heimurinn er, við höfum yfir öllu að kvarta heima en það er í raun ótrúlegt í hversu mikilli skel við búum. Ég áttaði mig alveg á því að ég bjó í vernduðu umhverfi áður en ég kom hingað, það þurfti enginn ða segja mér það hvað ég hafði það gott. En djöfull hafði ég gott af því að vera skíthræddur fyrstu vikuna mína því ég vissi ekki hvað ég hafði komið mér út í. Það var allt ógnvægilegt, leigubílarnir, umferðin, fólkið, húsin löggan og margt margt fleira. En við hverju getur maður búist þegar maður kemur úr hverfi sem lítur út eins og hverfin hér sem eru girt af með löggum og gaddavír. Ég bý á besta stað í bænum og þegar ég fór í gegnum hverfið mitt í fyrsta skipti þá hélt ég svo fast um veskið mitt að ég var við það að fá stíf krampa. Núna hleypur maður strætin með gullkort í hönd fáklæddur, uppfullur öryggiskennd heilsandi löggum og öðrum öryggisvörðum sem bera skotvopn með góðu noddi. Ótrúlegt hvað hlutirnir eru fljótir að breytast.

En það sem breytist seint er að venjast þeim lifnaðar háttum sem fólk býr við og þeim launum sem það þiggur fyrir sína erfiðis vinnu. Hér er svakaleg uppsveifla og nýbyggingar á hverju strái en hvergi sést vinnuvél né byggingar krani, allt hér er unnið með handafli, heilu göturnar eru fræsaðar og skipt um lagnir í götum eins og ekkert sé, þó tekur það tíma þar sem helstu verkfærin hér eru; skófla, járnkall og haki. Annað sem er skrítið að upplifa er gífurlegur vatnsskortur, við upplifum það ekki beint þar sem að við búum í vestrænum heim hér í hjarta Lima. Ég mun líklega aldrei venjast því að fólk hendi skítugum klósettpappír í ruslið en það segir kanski soldið mikið um það hversu ótrúlega gott við höfum það heima þar sem gnægð vatns er líklegast til meira en annars staðar í heiminum. Það er ótrúlega margt hér sem að maður þarf að venjast þrátt fyrir það að við séum í afar vernduðu umhverfi.

Það er samt gott að vita það að í landi eins og því sem að við búum í sem að hefur búið við einræði og spillingu í gegnum árin að tjáningarfrelsið virðist lifa, þrátt fyrir að við vitum ekki hversu mikið það er virkt þá er allavega gott að vita það að fólk getur safnast saman og mótmælt án þess að vera skotið, hér koma nokkrar myndir af mótmælum sem mynduðust fyrir utan húsið okkar, eins og sést þá var öryggisgæsla mikil á horninu þar sem að skrifstofa forsætisráðherra er en engann sakaði og ekkert vesen virtist vera. Ég fékk þó að fara í stríðsfréttamanna ham og leið eins og að ég væri í Kósóvó innan um vopnaða hermenn og æsta mótmælendur.

Ég fræði ykkur svo um ferð mína í eyðimörkina um síðustu helgi á morgun þegar ég jafna mig af bjór drykkjunni :D

Lima kveðja

Ægir

Mótmæli í Lima

Tuesday, August 19, 2008

Hola Mi Amigos/Amigas

How is life?

jæjæa þá er komið að því að fræða ykkur aðeins betur um þetta mikla ævintýri. Þannig er það að skólinn hjá okkur átti að byrja í gær, krakkarnir komu úr sveitinni og allir voða spenntir að fá loksins að byrja í skólanum. En eins og með allt annað í þessarri ferð þá er ekkert svo einfalt. Við vöknuðum klukkan 8 og vorum kominn í skólann kl. 9 á tíma og allt, þessi tími sem að er á mánudögum er eini tíminn sem að við fáum á ensku og ber heitið 'History of the Andean People' áhugaverður kúrs eflaust ef að hann væri ekki á mánudögum og föstudögum. Engu að síður vorum við mætt, útlendingarnir 4 í þennann tíma á slaginu 9, en heyrðu hvar er kennarinn? Okkur leið eins og í grunnskóla aftur, efað kennarinn var ekki komin eftir 15 mín þá fengum við frí. Við biðum og biðum þangað til að við áttuðum okkur á því að kennarinn væri ekki á leiðinni og fyrsti tíminn okkar féll því niður.

Við ákváðum að hinkra í skólanum því að næst var spænsku kennsla á Enrique, hann er í raun eini fasti punkturinn í lífi okkar eins og stendur, við erum búin að vera í spænsku kennslu hjá honum núna í rúma viku, 4 klst á dag og hann hefur frætt okkur mikið um Perú og lifnaðarhætti innfæddra, hann er eins og pabbi okkar hér í Lima. Við skelltum okkur í niðrí tungumála skólann sem er í um 5 mínútna göngufæri frá skólanum okkar. Við vorum komin þangað um 1 og eiddum næstu 4 tímum í eintómri gleði.

Að því loknu áttum við að mæta í tíma kl 5:30 í international relations. Við bombuðumst því aftur upp í skóla bara til þess að komast að því að það var búið að skrá okkur úr áfanganum sökum þess hversu erfiður hann er. Ragnheiður sú eina sem að kann spænsku af okkur 4 fór í áfangann og sagði að jafnvel fyrir hana hafi þetta verið allt of erfitt. Þannig að við vorum í raun kominn aftur á byrjunarreit. En jæja það er allavega nýr dagur á morgun hugsuðum við, og eftir slæmann dag þá drifum við okkur heim og fórum í háttinn snemma því við áttum að mæta í spænsku námskeið kl 7 um morguninn...

Í morgun vöknuðum við kl 6:30 (já meira segja ég vaknaði fyrir kl 7), og úti á horni rétt fyrir 7 beið spænsku kennarinn okkar eftir okkur til þess að keyra okkur í skólann, hann er æði eins og ég sagði að ofan og keyrir okkur stundum heim eftir skóla. Eftir erfiða 4 tíma hjá honum á nöprum þriðjudegi, var feriðinni heitið aftur upp í skóla. Þar beið okkur nýr kúrs sem að okkur var ráðlagt að taka, og var það kvikmynda og bókmennta kúrs sem ber nafnið 'Cine y Literatura'. Dios Mios segji ég bara, við komumst að því þegar að við vorum sest inn að þetta væri alls ekki fyrir okkur. Eg skildi ekki eitt aukatekið orð, ekki eitt. Ekki nóg með það þá var gengið á alla nemendur og þeir beðnir um að kynna sig og segja frá því hversvegna þeir hefðu valið kúrsinn. það vildi svo skemmtilega til að 4 íslendingarnir voru síðastir til þess að tjá sig og eftir ða sigga kynnti sig á ensku og davíð tjáði beknum og kennaranum við upp úr spænsku frasa bókinni sinni að hann talaði ekki spænsku þá skullu upp mikið hlátrarsköll og raunveruleikinn blasti við. Ég fékk því miður ekki tækifæri á að kynna mig eftir það :D Svo kom í ljós að það ætti að lesa 7 skáldsögur á spænsku og horfa á 7 spænskar bíómyndir og skrifa um þær skýrslu á spænsku og þá var okkur ljóst að þetta ætti ekki alveg við okkur :)

Þannig að eins og staðan er núna þá það 0 af 3 só far og er það vonandi að morgundagurinn verði betri við okku. En við látum engan bilbug á okkur finna og höldum ótrauð áfram vitandi það að það reddast allt á endanum. Á morgun er svo enn meiri spænskukennsla og einn áfangi í viðbót sem að við þurfum að prufa, okkur er sagt að hann sé á Spanglish, en við þurfum að komast að því á morgun sjálf hvað verður og hvað gerist...

Skólinn sjálfur er rosa fínn, flottur og þar er allt til alls, viðmót starfólksins er frábært og það vilja allir allt fyrir mann gera.

Um næstu helgi er svo ferðinni heitið í Paradís, Huacachina. Það er oasis(hvað er það á íslensku) í miðri eyðimörk, ótrúlega fallegur staður, þar förum við ásamt 53 öðrum krökkum, og böðum okkur í lauginni, förum á sandbretti! og einhverskonar sandrallý bíla. Hérna er svo það sem að okkur var sagt að taka með okkur.

What would you bring with you?
- Shorts
- Jacket or sweater for the night.
- pair of pants, jeans.
- running shoes, or boots for the sandboarding.
- swimsuit: is hot during the day (25 degrees or more) and cold at night (14 degrees)
- Alcohol! :)

öll þessi skemmtun, rúta, hostel, bílarallý sandbretti á heilar 3000 kr. þetta á eftir að vera rosa gaman og ég mun skrifa um þetta og sýna ykkur myndir af ferðalaginu okkar.

Bestu kveðjur

Ægir

P.S. þetta er það sem að ég á í vændum :D





Thursday, August 14, 2008

Undanfarnir dagar eru búnir að vera mjög viðburða litlir, við erum öll búin að vera með pínu magakveisu og höfum öll þurft að sitja hjá einn eða tvo daga í skólanum sökum þess. Ragnheiður greyið kemur hvað verst út úr þessu búin að vera veik heima undanfarna tvo daga.

Lima sjálf venst og venst, bilaða umferðin er farin að þykja nokkuð eðlileg og maður bara farinn að áta keyra sig um með opinn gluggann án þess að hósta menguninni. Fólkið sem áður þótti ef til vill pínu ógnandi er nú orðið frekar vinalegt. Og ramm girt hús, öryggisverðir og löggur orðið tákn um öryggi.

En þó er eitt sem ég get ekki vanist, og það eru helvítis lætin. Leigubílstjórar sem og aðrir brjálæðingar í umferðinni flauta eins og fávitar við hvert tækifæri. leigubílstjórar flauta á eftir þér í gríð og erg úti á götu að reyna fá þig inn í bíl, það er flautað á rauðum ljósum sem og grænum, það er flautað til gamans og stundum er bara flautað til þess eins að flauta. Við erum eiginlega kominn á það að flautan hér sé bara hin vinalegasta, að minnsta kosti á meðan maður er í umferðinni. Brjálæðingarnir hér í umferðinni virða ekki hægri rétt, í stað þess að hægja á sér þegar rétturinn er til hægri þá bruna þeir framhjá gatnamótunum með helvítis flautuna í botni til þess að láta vita af sér svo ekki sé þrusað inn í hliðina á þeim. Þó svo að flautan sem er heima á klakanum hið dónalegast tól í umferðinni sé farinn að virðast hin vinalegasta í umferðinni þá er það helvítis hávaðinn af henni sem berst alla leið upp á 16 hæð sem er að gera mann brjálaðann. Flautur og þjófavarnir vekja mann eins og vekjaraklukkur snemma á morgnanna og Ipod er í eyrunum til þess eins að ná að sofna. En svona er jú stórborgarlífið í allri sinni dýrð.

Við fórum í local lágvöruverslunina okkar sem er aðeins nokkrar blokkir frá okkur á mánudaginn. okkur tókst að versla eins og sönnum íslendingum sæmir, eða allt allt allt of mikið. Okkur tókst að versla fyrir rúmar 12 þús krónur, reyndar var ímislegt innifalið í þessum 12 þúsund krónum, áfengi sem að heima á klakanum væri vel 12 þúsund króna virði þannig að við hugguðum okkur við það að við fengum matinn frítt :D

Strimillinn af þessari miklu búðarferð...

Um kvöldið elduðum við okkur svo rosalega fína máltíð, með hráefnunum sem voru keypt fyrr um daginn dýrum dómum. Eins og sést á myndunum sem hér fylgja á eftir þá erum við með úrvals kokka hér á bæ, og eitt stykki sælkera í honum Davíð okkar.


svo vil ég enda þetta á því að sína ykkur sundlaugina okkar sem er uppi á þaki :D

Ekki al slæmt...

Kveðja frá Suður-Ameríku

Ægir

Gaman Saman

Sunday, August 10, 2008

Lífið Í Lima

Maður veit aldrei hvernig maður á að byrja svona. Ég er að hugsa um að segja ykkur aðeins frá fyrstu helginni minni hér í Lima nú þegar akkúrat vika er liðin síðan að ég kom hingað.

Við fengum okkar langþráða heimili loks á fimmtudaginn eftir mikið hótelbrölt og eirðarleysi sem betur verður greint frá í ferðasögunni sem er í vinnslu. Það er ólýsanleg tilfinning að eiga loks samastað á svona ókunnugum stað, mikil öryggis tilfinning kemur yfir mann sem og ákveðin ró vitandi það að maður þarf ekki að hugsa um hvar maður ætlar að sofa í nótt.

Eftir mikið brölt þá er það kannski skiljanlegt að helgin okkar er búin að vera svakalega róleg, og erum við öll 4 búin að einbeita okkur að því að njóta heimilisins okkar þessa helgi með því að gera lítið annað en að hanga í leti. Íbúðin okkar er á besta stað í bænum, á öruggum stað gegnt skrifstofu forsætisráðherra Perú og gefur að skilja að öryggisgæsla er því mikil í hverfinu. Við búum á 16. hæð í þriggja mánaða gamalli blokk, uppi á þaki er sundlaug, sem og BBQ og party svalir sem að við höfum aðgang að. Niðri á 1. Hæð er svo líkamsrækt, borðtennisborð og þvottahús sem við höfum öll aðgang að frítt að undanskildu þvottahúsinu þar sem að þvottavélin kostar um 60 krónur til að spara vatn :D ég hef því allt til alls og læt mér líða eins vel og hægt er hér í Lima. Það er ýmislegt sem að maður saknar að heiman, fyrst og fremst eru það fjölskylda og vinir en einnig sakna ég þess að skilja fólk og að það skilji mig, en vonandi verður breyting á því fljótlega...

Eftir að hafa flutt inn seinni part fimmtudags fór sá dagur í að ná sér niður á jörðina og búa um okkur. Á Föstudaginn var svo eldhúsið vígt með yndislegum spaghettí rétt með ferskum ólífum. Laugardagurinn var leti líf í lagi, ég eyddi deginum að mestu uppi í sófa að horfa á fótbolta(mér til mikillar ánægju er ekkert nema fótbolti í sjónavarpinu hér, og heilar þrjár stöðvar sem sýna ekkert annað allan sólahringinn), þó tók ég smá rölt með Davíð niður í Larcomar með myndavélina, eitthvað sem að ég mun ekki gera á næstunni þar sem að betlarar og götu höstlerar léku sér að því að pirra mig.

Laugardagskvöldið fór svo í það að njóta samverunnar í nýju íbúðinni með besta rauðvíni sem að við höfum smakkað, rándýrt rauðvín sem að kostaði okkur heilar 1800 kr (til að setja það í samhengi keyptum við okkur þrísíaða vodka flösku á um 450 krónur) og þegar rauðvínið hafði klárast þá hitnaði aðeins í konunum og vodka flaskan fékk að finna fyrir því út í sprite og ótrúlega ferskt lime fékk þar að fylgja með. Ég þarf eigin lega að setja inn sér færslu seinn um grænmetis og ávaxta úrvalið hér í Lima, hreint útsagt ótrúlegt.
Því gefur að skilja að dagurinn í dag(sunnudagur) fór að mestu leyti fram í sófanum fyrir framan sjónvarpið að horfa á boltann. Ég vaknaði snemma til þess að ná frekar leiðinlegum leik sem var góðgerðarskjöldurinn í enska, en svo fylgdu hörku leikir í argentínska boltanum þar sem að ég horfði á River Plate gera 1-1 jafntefli í opnunar leik mótsins þar syðra og þar á eftir fylgdi aðal leikur dagsins þegar liðið mitt Boca jr. tók á móti Gymnasia á La Bombonera og þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um þann leik enda fór Boca létt með 4-0 sigur mér til mikillar ánægju.

En ein helst ástæðan fyrir þessum pistli er að segja ykkur frá kvöldstundinni minni í kvöld. Kvöldið í kvöld átti að fara í inniveru og stelpurnar ætluðu í bíó. Við ákváðum þó að labba saman út á horn og kíkja á nálæga veitingastaði þar sem að við nenntum ekki að elda. Við kíktum inn á krúttlegan veitingastað sem heitir Tanta. Í fyrstu virtist þessi staður vera rosa krúttlegt kaffi hús en guð minn góður hvað það átti eftir að breytast. Fljótlega eftir að við settumst niður og fengum matseðlana í hendurnar komumst við að því að þetta væri nú staður í dýrari kantinum og að það væri aðeins fólk í efri stéttum samfélagsins í kringum okkur. Ég ákvað að fá mér steikarsamloku sem að var mælt með á matseðlinum, stelpurnar fengu sér lasagna og Davíð ákvað að vera brattur og fékk sér nautakjöt. Ég fullyrði það hér og nú að betra veitingahús er vandfundið hér á nágranaslóðum, þetta er allra besta steikarsamloka sem að ég hef smakkað, sömu sögu er að segja af nautinu hans Davíðs og lasagnað hjá stelpunum var ekkert slor heldur. Að því loknu fengum við okkur eftirrétt, ég fékk mér eina rosalegustu súkkulaðiköku sunnan miðbaugs, og fæ ég enn vatn í munninn við það að hugsa um hana. Þessi ósköp kostuðu mig heilar 32 sólir eða um 928 kr íslenskar og geri aðrir betur. Ég husga að ég verði fasta gestur á þessum æðislega veitingastað hinumegin við götuna mína á næstu mánuðum, og höfum við krakkarnir í hyggju að reyna smakka allt sem er í boði á matseðlinum :D

Annars er allt gott að frétta og ég bið að heilsa öllum heim...

Bestu kveðjur

Ægir

P.S. ég vil benda ykkur á að skoða neitendakönnunina sem að Davíð gerði um daginn, linkurinn á hans síðu er hér til hægri...