Thursday, September 4, 2008

Góðan daginn mínir kæru vinir og vandamenn.

Lífið hérna gengur sinn vanagang, og allir rosa glaðir og kátir. Fyrir utan það kannski að við erum öll búin að vera með svakalega magaverki og eru klósettin ef til vill búin að finna hve verst fyrir því og eiga þau alla okkar vorkunn skilið. Af þessum sökum er ég lítið búin að vera í standi til þess að segja ferðasögur en í dag verður breyting þar á.

Fyrir rétt tæpum tveimur vikum fórum við til Hucachina, sem er lítil paradísarlaut í miðri eyðimörkinni í suður hluta landsins. Við ferðuðumst með rútu þar sem að almennings samgöngur hér eru svipaðar og heima. Engar lestir og dýr flug. Við mættum á lestarstöðina þar sem að við hittum hóp af skiptinemum sem að fóru með okkur, allt í allt vorum við tæplega 60 talsins. Við lögðum af stað úr hverfi sem er allt í allt ekkert svo slæmt en þó verra en það sem að við búum í, en með hverri mínútunni sem að leið í rútunni og eftir því sem að við fjarlægðumst rútumiðstöðina þeim mun verra varð það. Það eru örfáar myndir sem að ég tók út um gluggann þar sem að þið sjáið aðstæðurnar sem fólkið býr við í hlíðunum sem eru við jaðarinn á Lima. Svipað tók við þegar við vorum komin út úr Lima í fyrstu að minnsta og var á tíðum hreint hrikalegt að horfa á það hvernig fólk býr. Eftir um klukkustunda ferð þá var gert pissu stop, þetta verður að heita eitt það ógeðfelldasta klóset sem að ég hef nokkru sinni stigið fæti inn fyrir, og þá er mikið sagt. Sem betur fyrir ykkur og mig þá á ég engar myndir af því, þið verðið því bara að láta ímyndunaraflið reika.



Eftir þessa áreynslu miklu klósett ferð tók svo alvöru ferðalagið aftur við, og varð ýmislegt á okkar vegi, það sem að kannski stendur hvað mest uppúr voru hversu rosalegar sviptingar voru á leiðinni. Það voru rosaleg hálf hrunin bárujárns skúrahverfi og svo hálfum km seinna var komið afgirt sumar þorp fyrir hina meira efnuðu, og sumir veggirnir í kringum þessi hverfi hafa kostað meira en samanlagðar árstekjur allra þeirra sem að bjuggu í skúrunum í kringum ríku fínu einkastrandirnar.


Annað sem að stóð uppúr voru minnis varðarnir sem höfðu verið reistir í vegaköntunum til minnis þeirra sem að hafa farist í umferðarslysum á leiðinni. Okkur var tjáð það eftir á að umferðar slys þá sérstaklega rútuslys væru frekar algeng í Perú og við vorum víst ekki að ferðast með öruggasta rútufyrirtækinu.


Örfáum klukkustundum síðar vorum við síðan komin til Pisco, lítil borg sem varð hrikalega úti í öflugum jarðskjálfta sem átti sér stað akkúrat ári áður en að við áttum leið hjá. Við áttuðum okkur ekki á því fyrst en þegar okkur var sagt frá því seinna þá tók margt að skýrast. Hálfhrunin húsþök með krossum til minningar um hörmungarnar, mikið um hálf hús og endur byggingar. Við héldum í sakleysi okkar í fyrstu að það væri bara svona mikil uppbygging í Pisco, en frekar hefði átt að tala um endurbyggingu heillar borgar sem að hrundi nánast í heilu lagi sökum þess hversu illa byggð húsin voru. Eitt það sorglegasta í þessu öllu er að húsin sem verið var að byggja voru samskonar þeim sem hrundu og því alveg jafn veik fyrir ef að skjálftinn ríður yfir aftur. Múrsteina kassar með drullu þaki. En það er svo sem lítið annað í boði fyrir fólk sem að á ekki neitt eftir að hafa misst allt sitt.

Því næst var komið að endastöð rútunnar, eða til Ica sem er frekar lítil og illa farin borg þrátt fyrir að þar búi álíka margir og á Íslandi. Það var svo sem lítið merkilegt sem að við sáum þar, enda brunuðum við á rútustöðina, og hoppuðum upp í lítinn míníbus sem að keyrði okkur í eyðimörkina sem var þó aðeins í um 5-10 mínútna akstri frá rútustöðinni.


Þegar komið var svo loks í það sem að átti að vera þessi mikla paradís, starði raunveruleikinn okkur blákalt niður. Við vorum komin til Sarajevo. Við verðum að viðurkenna það að miðað við þær væntingar sem að við gerðum okkur þá urðum við fyrir miklum vonbrigðum í fyrstu. Pleisið var drullu skítugt, vatnið gruggugt og skítugir flökkuhundar út um allt. Þegar búið var svo að koma sér fyrir í frekar nasty herbergjum ákváðum við að fá okkur að borða. Við fórum 5 saman, ég, Sigga, Davíð og þýsku vinirnir okkar tveir Friðrik og Kristján. Og fengum við líka þennan ógeðslega mat samloku í sykruðu hamborgarabrauði og eitthvað sem að líktist ekki hamborgara. En eftir þessar miklu sviptingar tók sólin að skína á okkur aftur og allt varð svona líka gott. Það er helvíti gott að lenda á bossanum strax og átta sig á raunveruleikanum.


Stuttu síðar var svo komið að hápunkti ferðarinnar, eyðimerkur rallíinu. Við settumst upp í lítið skrímsli með ennþá minna skrímsli við stýrið. Bílstjórinn getur ekki hafa verið mikið hærri en 1 og 40 cm en alveg snar ruglaður í hausnum. Við skundum af stað upp og niður brekkur á ljóshraða (eða svo fannst okkur), steyptumst fram af sand klettum sem að hrundu jafn óðan undan okkur og bombuðumst niður það sem virtist vera beint fall í fyrstu. Þegar við stoppuðum þá reyndi Davíð að gera sig skiljanlegan við bílstjórann okkar og talaði á einhverskonar bílafingramáli og spurði hversu kraftmikill bíllinn væri: ‘How many horsepower?‘ Littli vinur okkar svaraði hið snarasta: ocho (8). Átta hvað spurðum við sjálfa okkur en gátum því miður ekki gert okkur skiljanlega. Eftir stutta myndatöku, skelltum við á okkur snjóbrettum (eða niðursöguðum krossvið með olíufeiti) og þrusuðumst niður brekkurnar. Ég verð að segja það fyrir mitt leiti að eftir að hafa rennt mér einu sinni á snjóbretti og einu sinni á sandbretti, þá hefur hið síðara gífurlega yfirburði. Það er alltaf sól, það er alltaf heitt, maður þarf því ekki að útbúa sig eins og snjómaður, og þar að auki er ekkert svo slæmt að lenda í sandinum. Ég er reyndar enn að tína sandkornin eitt og eitt úr fötunum mínum. Að þessu loknu þá skunduðum við heim á leið en stoppuðum til þess að sjá sólina setjast. Ótrúlegt hversu hratt hún sest svona nálægt miðbaugi, hún var aðeins örfáar mínútur að hverfa bakvið fjöllin. Sólsetrið í eyðimörkinni minnti margt á Ísland, rauðleitur himin og sólin að hverfa bak við næstu hæð.



Það sem fylgdi á eftir er varla frásögufærandi, við komum heim til Sarajevo og fengum reyndar þennan dýryndis mat, eitthvað grillkjöt sem að ég hef ekki hugmynd um hvað var og yndislegt chilli salat með. Að kvöldmatnum lokið var svo ferðinni heitið á Diskóbar. Reyndar varð kvöldið mitt ekki lengra. Ég kíkti aðeins á Diskóbarinn sem var fullbúinn flúorljósum og diskókúlum. Dansgólfið var hálftómt enda voru ekki nema um réttrúmlega 50 skiptinemar á dansgólfinu að baða sig í ljósunum. Eftir að hafa eitt nokkrum mínútum á barnum var ferðinni heitið heim á klósettið þar sem að ég eyddi restinni af ferðinni og útskýrir það kannski hversvegna ekki eru fleiri myndir eftir eyðimörkina. Reyndar var einn af hápunktum ferðarinnar þegar að ég þurfti að reyna útskýra það fyrir þjónustufólkinu að klósetið væri stíflað og að það þyrfti að kippa því í lag ASAP :D

Það var rosalega blendin tilfinning að yfirgefa þennan stórfurðulega stað. Ég og Davíð komumst að því að ‚næstum því‘ væri besta leiðin til þess að lýsa þessum stað. Hann hefur allt að bera til þess að vera svo miklu meira en hann er. Það væri hægt að gera svo margt við svo spennandi stað, en einhvernvegin hefur þessi staður sem greinilega var eitt sinn eitthvað fengið að drabbast niður í eitthvað sem er langt fyrir neðan það sem að hann á skilið. Það er svo sem eins og með allt annað í þessu landi það vantar fjármuni til þess að fjármagna breytingar. Þó skilur þessi staður eftir sig góðar og heillandi minningar.

Ferðin heim var svo farin í þreytu og þögn, mestmegnis var horft á video og sofið í þá 4 og ½ tíma sem að ferðin heim tók. Íbúðina sá maður í hillingum sem og rúmmið og sturtuna.

Í kvöld þegar ég rifja upp þessa eftirminnilegu ferð er ótrúlega kósí kvöld hjá okkur fjölskyldunni, við sitjum hérna við stofuborðið að drekka bjór, hlustandi á Tom Waits. Ég er ekkert viss um að lífið geti verið mikið betra hér í Perú um þessar stundir.

2 Comments:

At September 15, 2008 at 2:57 PM , Anonymous Anonymous said...

Hæ elskan. Þú þarft að fara að blogga aftur bráðum :) Kannski þegar þú ert búinn í prófinu. Gangi þér rosa vel að læra :)
*kyssogknús*

Ásta

 
At September 16, 2008 at 7:16 AM , Anonymous Anonymous said...

Mikið er ég ánægður með síðustu setninguna þína.

Skrítið hvað erfiðar og að því er virðist leiðinlegar ferðir geta oft verið góðar og skemmtilegar eftir á.

Hafðu það áfram gott hómí.
-Alli

 

Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]

<< Home